Ferill 971. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1583  —  971. mál.




Svar


forseta Alþingis við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur og Birni Leví Gunnarssyni um skrifleg svör forseta Alþingis við fyrirspurnum frá alþingismönnum.

     1.      Hvert er ferlið á skrifstofu Alþingis þegar fyrirspurn skv. 3. mgr. 8. gr., sbr. 57. gr., laga um þingsköp Alþingis berst frá alþingismanni sem óskar skriflegs svars? Hvernig er það skráð í skjalavistunarkerfi skrifstofunnar?
    Skrifstofustjóri Alþingis eða staðgengill hans móttekur fyrirspurn og felur starfsfólki skrifstofu Alþingis að undirbúa svar við henni. Það ræðst af efni fyrirspurnar hverju sinni hvaða einingar skrifstofunnar koma að undirbúningi svars. Drög að svari við fyrirspurn eru send skrifstofustjóra og forseta Alþingis til skoðunar. Þá er svarið sent útgáfudeild til yfirlestrar og að honum loknum til þingfundadeildar til skráningar og útbýtingar.
    Sérstakt mál er stofnað í málaskrárkerfi skrifstofunnar fyrir hverja fyrirspurn, undir viðeigandi málalykli, með viðkomandi alþingismanni sem málshefjanda og þeir starfsmenn sem koma að gerð svarsins eru skráðir tengiliðir máls.

     2.      Hversu langur tími leið að jafnaði undanfarin þrjú ár frá því að fyrirspurn var útbýtt þar til forseti sendi skrifstofunni skriflegt svar til vinnslu? Svar óskast sundurliðað eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
    Vísað er til upplýsinga í töflu að aftan. Athuga ber að engin fyrirspurn barst forseta Alþingis með vísan til 3. mgr. 8. gr. laga um þingsköp Alþingis á 152. löggjafarþingi.

Fyrirspurn Löggjafarþing Útbýting Svar sent til vinnslu Fjöldi virkra daga
777. mál: Gervigreind
(Björn Leví Gunnarsson)
154 11.3.2024 11.4.2024 23 dagar
594. mál: Fjöldi ráðinna starfsmanna þingflokka sl. 20 ár (Bergþór Ólason) 154 22.1.2024 1.2.2024 8 dagar
1205. mál: Fjöldi ráðinna starfsmanna þingflokka sl. 20 ár (Bergþór Ólason) 153 9.6.2023 Fyrirspurninni var ekki svarað fyrir þinglok.

1129. mál: Algild hönnun og nýbygging Alþingis (Ágúst Bjarni Garðarsson)

153

30.5.2023 8.6.2023 7 dagar
838. mál: Samskipti vegna greinargerðar setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol ehf. (Jóhann Páll Jóhannsson) 153 13.3.2023 31.3.2023 14 dagar
837. mál: Takmörkun aðgangs að bréfi frá settum ríkisendurskoðanda og fylgiskjali þess (Jóhann Páll Jóhannsson) 153 13.3.2023 31.3.2023 14 dagar
763. mál: Ráðning starfsfólks með skerta starfsorku (Ásmundur Friðriksson) 153 21.2.2023 14.3.2023 15 dagar
443. mál: Áskrift að dagblöðum, tímaritum og öðrum miðlum
(Björn Leví Gunnarsson)
153 15.11.2022 8.12.2022 17 dagar

     3.      Hvaða aðilar á skrifstofunni sjá um vinnslu skriflegra svara, frágang þeirra, yfirlestur og sendingu til þingfundadeildar til skráningar? Hversu langan tíma tók hvert þessara skrefa að jafnaði undanfarin þrjú ár? Svar óskast sundurliðað eftir löggjafarþingum og fyrirspyrjendum.
    Vísað er til svars við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Upplýsingar um hversu langan tíma hvert skref í undirbúningi svars tók eru ekki tiltækar í málaskrá skrifstofunnar.